6.9.08

Kaloríusmygl


Hvað á það að þýða að kalla sykraðan drykk "water". Varðar þetta ekki við einhver lög? Á ekki hið opinbera að vernda borgarana fyrir svona svínaríi? Þetta er ég búin að vera að svolgra í mig í tuglítravís í góðri trú og af rælni fór ég að lesa utan á. Það er ekki hægt að ætlast til að bonus pater átti sig á þessu. Heilar 37 kaloríur í 100 ml. Ég sem hélt að "Tonic Water" væri svipað og toppur eða kristall. Skaðabótakrafa hlýtur að hafa stofnast á Vífilfell hf. vegna þyngdarröskunar sem klárlega hefur af þessu leitt. Þungbærast er að ég hef mátt þola algeran skort fólks á samúð og skilningi vegna þessa áfalls. Ég get ekki drukkið þetta framar.

4 comments:

Unknown said...

Já hætturnar leynast víða fyrir okkur neytendur. Leyfi mér að benda á að Tonic water hefur gjarnan verið nýtt til að blanda við áfenga drykkinn gin. Vona að þú hafir ekki svolgrað tonicið í bland við þann görótta drykk. Gaman að lesa síðuna um eitt og annað skemmtilegt sem á daga þína drífur.
Kveðja
Sigrún Jóns.

Rúna said...

Þakka þér. Sussunei, varla að ég muni hvernig téð áfengistegund bragðast, eina sukkið reyndist vera sykursukk.

Unknown said...

Ertu að segja að þú hafir drukkið dræ Tonic Water? Veit Baggalútur af þessu: Kona í Vogahverfi drakk ginlaust Tonic Water!

Rúna said...

Svona eins og þú segir þetta þá er allt í einu mjög greinilegt að kona þessi gengur ekki heil til skógar.