Á vef Alþingis segir að þar sé að finna "Íslensk lög 1. janúar 2008". Ekki er fjölyrt um að hinir ýmsu alþjóðlegu samningar gildi hér á sama hátt og heimatilbúin lög frá Alþingi. Með öðrum orðum, sá sem fer á vef löggjafarsamkundunnar í leit að gildandi rétti á Íslandi, kemst ekki í mark. Hægt væri að tala um för í geitarhús að leita ullar en mér er of vel við geitur til að orða það svo.
Mál Kenýamannsins Paul Rames vakti athygli mína. Í þeim fréttum sem ég las um málið er gjarnan talað um "Dyflinarsamninginn" með ákveðnum greini, svona til að segja lesandanum að ef hann kannast ekki við samninginn þá sé hann vitlaus. Hvergi fylgdi linkur á þennan merka samning sem þó virðist hafa ráðið örlögum mannsins.
Ég ákvað að leita uppi þessa réttarheimild. Það gat ekki orðið stórt verkefni fyrir lögfræðinginn. Ekki reyndist "Dyflinarsamningurinn" vera á vef Útlendingastofnunar undir "lög og reglur" og leit á vef Alþingis skilaði þeirri skemmtilegu athugasemd "get ekki beygt Dyflinarsamningurinn". Ekki gekk mér að leita á vef utanríkisráðuneytisins þó þar sé glæsilegt "EES vefsetur". Ég fann loks gamlar ársskýrslur á vef Útlendingastofnunar, þar kom fram á blaðsíðu 9 í ársskýrslu 2003 að þessi samningur heitir núna "Dyflinarreglugerðin", alltaf með ákveðnum greini eins og verið sé að tala um eitthvað jafnkunnuglegt og barnalögin. Þar fannst líka númer á reglugerðinni, það er 343/2003. Eftir að hafa notað þessa nýju vitneskju á Google fann ég 16 síðna grein sem sögð var eftir Björn Bjarnason og þar í neðanmálsgrein númer 23 var að finna þær dýrmætu upplýsingar að samningurinn hafi verið birtur í c-deild Stjórnartíðinda 30. maí 2003. Útilegumaður fundinn.
Reyndar stóð einnig í sömu neðanmálsgrein að samningurinn hafi verið birtur sem fylgiskjal með frumvarpi til laga um útlendinga, þannig að hann ætti að vera á vef Alþingis, ég leitaði því betur þar. Í ljós hafði komið hjá Birni að "Dyflinar" átti að vera "Dyflinnar" með tveimur ennum og ef tvö enn eru viðhöfð á leitarvél Alþingis þá kemur upp þessi ágæta fyrirspurn Marðar Árnasonar og fróðlegt svar Björns Bjarnasonar við henni, einmitt fínt innlegg í umræðu um mál hælisleitandans. Þarna kemur fram að ekki færri en 73 hælisleitendur voru, á árunum 2003-2007, í samræmi við títtnefndan samning/reglugerð, sendir frá Íslandi til annars aðildarríkis samkomulagsins. Markmið þess er reyndar svo fallega orðað að maður kemst við: "Sameiginleg stefna varðandi hælisveitingar, þ.m.t. samevrópskt hælisveitingakerfi, er þáttur í því markmiði Evrópusambandsins að koma smám saman á fót svæði þar sem ríkir frelsi, öryggi og réttlæti, er sé opið þeim sem, sakir sérstakra aðstæðna, leita verndar innan bandalagsins á löglegan hátt."
Stórmerkilegt var að þegar samningurinn eða reglugerðin loks var fundin í C-deildinni, þá hét hann alls ekki Dyflinnarsamningurinn, heldur "auglýsing um gerð sem felur í sér breytingu á samningi sem ráð Evrópusambandsins og Ísland og Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna." Auðvitað.
3.7.08
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
5 comments:
Ég skrifaði nú bara dublin agreement í google og fékk hann strax upp.
Er ekki líka frekar algengt að talað sé um lög og reglur sem eru ekki nákvæmt lögförmleg nöfn þeirra? T.d. talar fólk gjarnan um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Hann heitir reyndar ekki "Dublin agreement" á ensku, heldur "The Dublin Convention". Um hann má lesa á Wikipedíu og allur texti samningsins er m.a. hér.
1. málsgrein í 9. gr. er líklega það sem á við hér: "The responsibility for examining an application for asylum shall be incumbent upon the Member State responsible for controlling the entry of the alien into the territory of the Member States, except where, after legally entering a Member State in which the need for him or her to have a visa is waived, the alien lodges his or her application for asylum in another Member State in which the need for him or her to have a visa for entry into the territory is also waived. In this case, the latter State shall be responsible for examining the application for asylum."
Þar sem hann fékk vegabréfsáritun á Ítalíu þurfti hann ekki áritun við komuna til Íslands, og því geta íslensk stjórnvöld fyrrt sig ábyrgð skv. þessu.
Hins vegar er 9. gr. áhugaverð: "Any Member State, even when it is not responsible under the criteria laid out in this Convention, may, for humanitarian reasons, based in particular on family or cultural grounds, examine an application for asylum at the request of another Member State, provided that the applicant so desires."
Skv. því ætti Ramses að geta óskað eftir því að mál hans sé tekið til skoðunar á Íslandi með ofangreindum rökum. Hvort íslensk stjórnvöld væru þá tilleiðanleg er annað mál.
Hm, hefði nú mátt lesa aðeins betur. "The Dublin Convention" er ekki lengur í gildi, heldur tók "Dublin II Regulation" við (eða "Council Regulation (EC) No 343/2003"). Sem skýrir líklega ruglinginn á íslensku síðunum, Dyflinnarsamningurinn stendur þá líklega fyrir "Dublin Convention" og "Dyflinnarreglugerðin" fyrir þann síðarnefnda. Sem bendir nú óneitanlega til þess að íslensk stjórnvöld séu nú alls ekki viss um hvað gildi og hvað ekki...
Það er einmitt málið, borgararnir verða að geta vitað hvaða reglum þeim beri að lúta. Það þarf að birta lögin svo reglurnar verði skuldbindandi. Þessvegna dugar ekki að finna texta samningsins bara einhversstaðar á vefnum, það þarf að finna hann í stjórnartíðindunum. Ég sætti mig ekki alveg við að þurfa á þjónustu Google inc. að halda til að komast að því hvaða reglur gildi hér í lýðveldinu. Ég vil að vefsíður íslenskra yfirvalda svari því.
Vegna legu okkar lands þá er deginum ljósara að samningur þessi gefur okkur möguleika á að senda til baka nær alla hælisleitendur. Það er alger hending ef einhver kemst hingað BEINT frá landinu þar sem mannréttindabrotið var framið. Hvenær er næsta flug frá Nairobí til Keflavíkur?
Það tók mig 5 mínútur að finna þessa reglugerð á vef Evrópusambandsins með hjálp Google:
http://eur-lex.europa.eu/smartapi/cgi/sga_doc?smartapi!celexplus!prod!DocNumber&lg=en&type_doc=Regulation&an_doc=2003&nu_doc=343
Og umfjöllun um hann:
http://europa.eu/scadplus/leg/en/lvb/l33153.htm
Post a Comment