Þegar ég rifjaði um frækaup mín frá Rússlandi fór ég að hugsa um að ég flaug eitt sinn með flugfélaginu Aeroflot. Mér er minnisstætt að gangurinn í flugvélinni dúaði eins og trégólf í gömlu húsi þegar ég gekk inn eftir honum og ég sé enn fyrir mér glansandi terlínbuxnarassinn á vel nærðum flugþjóninum. Starfssystir hans var með silungavarir, hún hafði varalitað dálítið útfyrir og gert nokkur önnur alvarleg förðunarmistök. Ég sá ekki flugmanninn. Það var fátt annað að gera en að flissa að hugsunum sínum um voveiflegan dauða í eldhafi.
Í Moskvu kunnu menn að rukka fyrir aðgang að túristagildrum. Ein lúga fyrir innfædda, önnur fyrir útlendinga með fulla vasa fjár. Ég borgaði mig meira að segja inní kirkjugarð þar í borg. Merkilegt hvað við erum feimin við svona gjaldtöku. Kannski finnst okkur slíkt vera skammarleg ógestrisni (góðu gerið þið svo vel), kannski erum við að friðþægja fyrir annars hæsta verðlag í heimi, við vorkennum túristunum meira en okkur sjálfum útaf því.
Ferðamenn, jafnvel þó þeir séu afkomendur Jóns Arasonar, eiga auðvitað að borga rúllugjald inná fjölsótta staði, enda brýnir hagsmunir allra að þeim sé viðhaldið og að skítsæmilegir kamrar fyrirfinnist. Slík mannvirki eru yfirleitt ekki til prýði, þannig að peningana er upplagt að nota til að fá Ólaf Elíasson og Rúrí til að hanna flottustu kamra í heimi við helstu fossa landsins.
20.7.08
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment