Í gær tók ég reglulega vel til í ísskápnum. Þetta er rétt er að umorða. Ég flutti þaðan og í tunnuna matvæli sem láðst hafði að snæða, til að rýma fyrir samskonar matvælum, nýkeyptum. Mér leið eins og ég hefði syndgað gegn mannkyni og móður jörð í einni aðgerð. Koltvísýringur, hlýnun jarðar, ofvaxnir ruslahaugar og sveltandi fólk. Ég iðrast og mig langar til að bæta ráð mitt.
Sumir halda því fram að eina leiðin til að hemja sig í kjörbúðum sé að fara ævinlega þangað með innkaupalista og þá helst fyrir vikuna. Trúlega er betra að fara í verslun með lista yfir þann mat sem nýlega hefur verið hent. Nú get ég sett á þann lista pítusósu, samlokubrauð, sólblómabrauð, grænt pestó, kúrbít, lime, skyr, mjólk, léttmjólk, fjörmjólk, soyamjólk og jógúrt.
Eins getur verið gagnlegt að endurskilgreina hugtakið "verð". Taka má dæmi um skinkusneiðar seldar í bréfum. (Hvaðan kemur þetta rugl um skinkubréf? Þau eru plast.) Á skinkuplastið er prentað útsöluverð per kíló en að teknu tilliti til þess að skinkuplöstum er gjarnan hent ásamt seinni helmingnum af skinkusneiðunum, kemur í ljós að kílóverð étinnar skinku er kr. 6.000.
Bretar segjast henda einum þriðja af matnum sem þeir kaupa í tunnuna. Ég hef verið meira á amerísku línunni hingað til en þeir henda helmingnum.
No comments:
Post a Comment