28.7.08

Ekkert skilti, engin hætta.


Myndin er af ítarlegu viðvörunarskilti við Pollinn á Tálknafirði. Dásamlega friðsæll staður. Þarna eru þrír heitir pottar útí guðsgrænni náttúrunni, ekki mjög uggvænlegir að sjá. Tálknfirðingar töldu það þó ekki eftir sér að setja upp skilti. Enter at own risk.

Mér varð hugsað til frétta frá Vík. "Ólíðandi með öllu að ekki séu viðvörunarskilti við Reynisfjöru". Hætta - Danger - Gefahr. Þér getið drukknað í sjónum. No swimming. Kannski einhver myndi hætta við að hætta sér. Landeigandinn að hugsa um að loka svæðinu, verði hann krafinn um viðvörunarskiltið. Hann setur upp annað skilti: Aðgangur bannaður.

Það er upplifun að standa í Reynisfjöru. Brimið er hamslaust, ofbeldisfullt og ógnandi. Eftirminnilegast finnst mér hljóðið, sífelldur þungur dynur úr iðrum jarðar. Þarna þarf ekkert skilti. Skilaboðin eru skýr.

Víkmýringar fara sér ekki að voða í Reynisfjöru. Tungnamenn stinga ekki lúkunum oní Geysi í Haukadal. Auðvitað á að reisa óþörf skilti til aflestrar fyrir aðkomumenn. Landeigandinn, ferðaskrifstofan, leiðsögumaðurinn, allir geta bent á skiltið ef eitthvað fer úrskeiðis.

No comments: