30.7.08

Tálknafjörður



Ég heimsótti Tálknafjörð um síðustu helgi. Það var bæjarhátíð og fólk skemmti sér, heimamenn, brottfluttir og ferðamenn. Börn og gamalmenni og allt þar á milli. Kvenfélagið með kaffi og rjómavöfflur. Björgunarsveitin grillaði lambakjöt og steinbít í kvöldsól. Þessi hátíð var eins og blanda af ættarmóti og sautjánda júní. Verður ekki betra.
Tálknafjörður er fallegt pláss, veðursældin leynir sér ekki á gróðrinum og Sunnlendingurinn kunni að meta að fjöllin halda sig í hæfilegri fjarlægð. Heppnir eru þeir líka að hafa heitt vatn. Þessvegna hafa þeir átt sundlaug áratugum saman og þar ku öll sýslan að hafa lært að synda hér áður. Pollurinn var líka draumur. Mér fannst merkilegt að það er ekki hverabragð af heita vatninu þeirra.
Ég skoðaði allar göturnar í bænum, bryggjuna, gamalt fiskvinnsluhús með mörgum spennandi vélum á hlaðinu, fiskikör í stæðum, báta, gullströnd, drápskríur, hundahreinsunarkofa (aflagðan), þroskuð aðalbláber (blá og svört), kirkjuna í Stóra-Laugardal, kaupfélagið, Pollinn, Hópið, Dunhaga, sundlaugina, íþróttahúsið, álfastein, nýju kirkjuna, Villimey og allar fallegu ljósmyndirnar hennar.

1 comment:

Anonymous said...

Halló og takk fyrir síðast. Þú ert ótrúlega nösk í að draga saman í einfaldar setningar og nokkur orð, sem aðrir þurfa orðaflaum til að lýsa upplifunum.
Við erum komin aftur heim, en erum á leiðinni suður á tónleika með Eric gamla Clapton og strax aftur heim á laugardag, endalaust flakk.
Kveðja Kristjana