29.7.08

Dýr orð

Samkvæmt dómi héraðsdóms í gær er Páli Magnússyni, Helga Seljan Jóhannssyni, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigmari Guðmundssyni og Þórhalli Gunnarssyni gert að borga lögmanni sínum fyrir hans störf, þó þau hafi verið alfarið sýknuð af miskabótakröfu Luciu Celeste Molina Sierra og Birnis Orra Péturssonar. Málskostnaður var látinn falla niður, eins og það heitir á tungumáli dómara. Það þýðir ekki að dómarinn hafi ákveðið að málið væri ókeypis.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála í héraði skal sá sem tapar máli í öllu verulegu skal að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Í 3. mgr. sömu greinar segir: "Nú vinnur aðili mál að nokkru og tapar því að nokkru eða veruleg vafaatriði eru í máli, og má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu."

Dómarinn ákvað að hvor aðili þessa máls ætti að greiða sinn kostnað en með því er hann að segja að "veruleg vafaatriði" hafi verið í málinu.

Hér talar dómarinn:
"Ekki er dregið í efa að málið hafi haft fréttagildi og því eðlilegt að um það væri fjallað í fjölmiðlum. Hins vegar er fallist á að ekki hafi verið vandað nægilega til undirbúnings umfjöllunar um málið í upphafi og gætt hafi ónákvæmni og að sumu leyti ekki farið rétt með staðreyndir um málsmeðferð varðandi umsóknir um ríkisfang. Leiðréttingar áttu sér stað er á umfjöllunina leið og verður ekki talið að umfjöllunin að þessu leyti hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnenda."

"Af gögnum máls verður ekki ráðið að afgreiðsla umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt hafi verið önnur en almennt gerist, eins og gefið var í skyn í upphaflegri umfjöllun Kastljóss um málið. Það breytir því þó ekki að réttlætanlegt tilefni var til þess að fjalla um málið sem varðaði meðferð og afgreiðslu allsherjarnefndar á veitingu ríkisborgararéttar, eins og fyrr greinir. "

Það verður ekki séð af lestri niðurstöðunnar í heild sinni að dómarinn hafi velkst í miklum vafa, hann segir þó að ónákvæmni hafi gætt í fyrstu umfjöllun Kastljóssins af málinu, sem leiðrétt var á síðari stigum og að gefið hafi verið í skyn í upphaflegri umfjöllun Kastljóssins að meðferð umsóknar stefnanda hafi verið önnur en annarra umsókna um ríkisborgararétt, en það verði ekki ráðið af gögnum málsins.

Samkvæmt þessu verður ónákvæmni í upphafi fréttaflutnings af málinu til þess að hinir sýknuðu þurfa að borga málskostnað sinn. Það er dýr ónákvæmni. Krafan virðist vera sú að fréttamenn séu óskeikulir. Málinu er þó ekki lokið, í frétt RÚV er haft eftir "verjanda" (ónákvæmi hjá RÚV) parsins að dómnum verði áfrýjað.

No comments: