15.7.08

Sæt er lykt

Ekki áttaði ég mig á því fyrr en af því voru færðar fjölmiðlafréttir að hveralykt er vond. Hún er ekki bara vond af því hún berst frá hinni vondu Hellisheiðarvirkjun heldur þykir hún argasta fýla og jafnvel sögð minna á prump. Ekki hljómar heldur vel að anda að sér brennisteinsvetni, jafnvel þó það sé innan allra veginna og metinna viðmiðunarmeðaltalsmarka.

Í Hrunamannahreppi, þar sem ég er uppalin, er mikið af hverum, sérstaklega í nágrenni Flúða. Varla er hægt að reka niður bor án þess að upp komi heitt vatn. Reyndar er mun erfiðara að finna kalt neysluvatn og á mínu bernskuheimili rann kælt hveravatn úr kalda krananum. Það var stutt í hverinn og ósegjanlega gaman að sniglast í kringum hann, kasta í hann grjóti, hlusta eftir næstu gusu, sjóða í honum gulrætur og reyna að brenna sig ekki. Og það var gaman að anda að sér gufunni. Það var sérstaklega notalegt þegar hún fauk á mann í svölu veðri.

Mér finnst alltaf gott að finna þessa lykt á Hellisheiðinni þegar ég er á leið austur.

2 comments:

Unknown said...

Skil þig fullkomnlega - það var gaman að grafa upp nýja hveri og skreyta þá. Reyndar var Hveraboli alltaf ógn en það varð að sigrast á óttanum.

Rúna said...

Hverabola man ég ekki eftir, kannski eins gott, það var nóg samt af skrímslum og draugum til að vera hræddur við.