19.7.08

Bakari var hengdur

Mikil skaðræðisplanta ein heitir Skógarkerfill. Af því voru færðar fréttir í Mogganum í fyrradag að Eyfirðingar hyggðust ráðst gegn honum með eiturefnum, áður en hann legði undir sig þinglýstar eignir bænda þar um slóðir. Skógarkerfillinn flæðir frjálst um Esjuhlíðar við Mógilsá og sést hvíta slæðan langt að þegar hann er í blóma. Góðar myndir og fróðleikur hér á vef Náttúrufræðistofnunar. Sem dæmi um yfirgang skógarkerfilsins má nefna, að þó íslenska sauðkindin og lúpínan séu bærilega fylgnar sér, hafa þær ekki roð við kerflinum.

Mikil öndvegisplanta heitir Spánarkerfill, og ég hef verið með hann í garðinum mínum um árabil. Hann sáði sér sjálfur á góðan stað og hefur innflytjandinn aðlagast vel. Hann er duglegur að sá sér en ekki eins aðgangsharður og frændi. Ég hef alltaf klippt af honum blómstönglana áður en fræin falla á haustin af því mér finnst temmilegt að hafa einn í garðinum mínum, en vil ekki hafa heilan hóp. Hann er blaðfallegur og gróskumikill og af honum er anisbragð og -lykt sem latneska nafnið, Myrrhis odorata, vísar til.

Spánarkerfillinn minn má þola athugasemdir og jafnvel eru viðhafðir grímulausir eineltistilburðir í hans garð vegna tengsla hans við hryðjuverkakerfilinn, enda eru þeir svipaðir í útliti og í daglegu tali heitir þetta allt kerfill. Um daginn sá ég að einhver hafði tekið sig til, að mér fjarstaddri, og klippt af kerflinum mínum blómstönglana, sem þó voru langt frá því að fella fræin. Stutt rannsókn leiddi í ljós að nágranninn sem þar var að verki taldi sig hafa aðhafst í réttmætri sjálfsvörn gegn yfirvofandi fræregni og hefur það mál nú verið jafnað. En kerfillinn verður ekki jafngóður fyrr en næsta sumar.

No comments: