18.7.08

Ærlýsing



Það var stórviðburður í mínu lífi þegar föðurafi minn, hann stóri Páll í Dalbæ, gaf mér lamb, þá var ég sennilega sex ára. Hosa var ærin kölluð og móðurafi minn, Emil í Gröf, tók að sér að skaffa henni fæði og húsnæði.

Hosa var svartbotnótt, með hvíta bringu, hvítar hosur og hvíta blesu. Hornin voru svört og beindust fremur aftur en út til hliðanna. Hún var háfætt, mjóslegin og kvik í hreyfingum. Ég get séð andlitið á henni fyrir mér. Hosa var stygg og tortryggði allar mannskepnur. Mikið reyndi ég að vingast við hana en það var alveg árangurslaust. Hún vildi aldrei tala við mig. Þegar hún var nýborin var hún sérstaklega illskeytt. Þá fnæsti hún og stappaði niður framlöppunum þegar ég reyndi að nálgast lömbin og ég þorði ekki inní króna til hennar af ótta við að verað stönguð í hel.

Þrátt fyrir þetta var ég stolt af Hosu minni, vissi að ástæðan fyrir stórlyndi hennar var að hún var forystukind og það var gegn hennar eðli að láta kjassa sig eins og hvert annað gæludýr, þó hinar rollurnar létu sér það vel líka. Auðvitað fór hún alltaf fyrir sínum hópi. Það virtist fullkomin samstaða um það, aldrei fór nein fram úr henni. Hosa gekk alltaf með höfuðið reist og skimaði í kringum sig. Ef maður horfði á hana þá horfði hún á móti.

Frjósemina vantaði ekki, ævinlega var hún tvílemd og mjólkaði sínum lömbum afburðavel. Hæglega hefðu getað gengið undir henni þrjú lömb. Lömbin voru alltaf þrælvæn og urðu vitaskuld að kjöti á haustin. Oftast voru skrokkarnir 18-20 kg hvor. Andvirði þeirra fór á bankareikning minn við Búnaðarbankann í Hveragerði. Þegar ég var 12 ára keypti ég tekkskrifborð, íslenska framleiðslu, sem kostaði nokkurnveginn alla innistæðu þess reiknings. Það er örugglega dýrasti lausafjármunur sem ég hef á ævinni keypt.

Hosa á enga afkomendur, sem er synd, því hún var stólpagripur. Myndin er ekki af henni en hún var ekki ósvipuð þeirri til hægri.

Sem betur fer er enn til forystufé á Íslandi, svo er bændum fyrir að þakka. Þessar skepnur eru einstakar í heiminum og eru ekkert minna en þjóðargersemar sem ber að virða og varðveita. Skömm okkar verður mikil ef það misferst. Það er til þjóðarblóm, meira að segja þjóðarfjall, en vantar sárlega þjóðardýr. Það væri í góðu samræmi við opinbera sjálfsmynd Íslendinga að samsama sig forystusauðum, betra þjóðardýr væri vandfundið.

No comments: