12.7.08

Grænt hreinol

Brot sem ég sá úr skemmtilegum sjónvarpsþætti um iðnað á Akureyri leiddi til þess að ég valdi mér akureyskan uppþvottalög í Hagkaup. Ekkert Fairy drasl. Grænt hreinol - þetta gamla góða í uppþvottinn. Brúsinn er úr mjúku plasti, rifflaður á þverveginn, þannig að uppvaskarinn nær á honum góðu gripi með sápugum lúkunum. Hann er dásamlega austantjaldslegur í útliti. Það er eitthvað notalegt og öruggt við hallærislegar umbúðir, vekur von að innihaldið sé betra. Svo hríslast um mann nostalgían. Þversagnakennt að ég keypti þetta einmitt útaf umbúðunum.

Annars er þessu lofað um innihaldið: Mildur og drjúgur uppþvottalögur. Notið aðeins nokkra dropa í uppvaskið. (Er hér verið að þéra einn lesanda, eða er verið að ávarpa hóp?) Hentugt fyrir gluggaþvott.

Þar sem ég var komin í nostalgíukast í búðinni þá keypti ég líka drullusokk. Það verður að vera einn slíkur á hverju heimili.

No comments: