Ég fékk í dag hjartnæman tölvupóst frá konu sem kvaðst vera haldin banvænum sjúkdómi sem myndi vísast draga hana til dauða á fáum vikum. Hún hafði ekki alls fyrir löngu misst elskulegan eiginmann sinn þannig þarna var skammt stórra högga á milli hjá manninum með ljáinn, enda hafði konan mjög snúið sér til Drottins allsherjar sér til styrkingar á erfiðum tímum. Erindi hennar við mig var þó á veraldlegum nótum, hún hafði kosið að arfleiða mig að umtalsverðum auðæfum sínum, nánar tiltekið 3,5 milljónum dollara. Konan kvaðst treysta mér til að nýta féð til góðra verka, þurfandi smælingjum til hjálpar, ekki síst ekkjum og munaðarleysingjum og óskaði mér margfaldrar guðsblessunar í starfi jafnt sem einkalífi. Hennar auðmjúk ósk var að ég hefði samband við lögmann hennar, einn æruverðugan Pedro Antonio í Madrid til að mál þetta mætti hafa framgang.
Það var skemmtilegt að finna hve tilfinningin af lestri þessa fallega bréfs var jákvæð, þó ég vissi svosem að markmiðið væri að ég yrði viðskila við mína fjármuni. Svona er maður auðtældur. Falleg orð hafa góð áhrif þó ósönn séu. Það mun vísindalega sannað að það hefur jákvæð áhrif á andlega líðan að færa munnvikin uppá við jafnvel þó það sé gert algerlega að tilefnislausu.
1.7.08
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment