25.7.08

Óorð

Skrauthvörf eru skemmtileg. Það er alltaf gaman að fylgjast með fólki handleika heitar kartöflur. Stundum er nýju orðunum ætlað að sýna hve notandinn er vel upplýstur einstaklingur, þar er gott dæmi orðið geðröskun, eða jafnvel felmstursröskun, sem er aðeins fyrir lengra komna. Allskyns raskanir virðast í sókn. Svo geta orð geta fengið á sig óorð og orðið ónothæf vegna langvarandi misbeitingar, kynvillingur fékk rauða spjaldið fyrir margt löngu. Í öðrum tilvikum er verið að klæða úlfinn í sauðargæruna, þar er gott dæmi orðið varnarefni sem þýðir eitur og orðið skygging sem hér þýðir að njósna.

Merkilegt að brúðkaup hafi ekki lent í hreinsunareldinum, það vísar til kaupsamnings um kvenmann.

Lýtaaðgerðir hafa verið gerðar hjá hinu opinbera. Orðið stofnun er óttalega stofnanalegt og neikvæðar tilfinningar hellast yfir þann sem það notar. Félagsmálastofnun verður Félagsþjónustan sem verður Þjónustumiðstöð. Stofnun er þó skömminni til skárri en eftirlit, þar er stóri bróðir örugglega fastráðinn. Útlendingaeftirlit verður Útlendingastofnun. Heimilislegast er þegar nafnið endar á stofa. Þar hlýtur fólki að líða vel. Neytendastofa.

Um daginn sá ég á prenti orðið veigrunarorð. Eru það skrauthvörf yfir skrauthvörf?

Það er eftirspurn eftir nýjum og fallegum veigrunarorðum: Sífellt fleiri gæludýr glíma við kjörþyngdarröskun.

No comments: