29.6.08

Ekkert að sjá í Hrunamannahreppi?

Á föstudaginn keypti ég bók handa sjálfri mér, 101 Ísland - áfangastaðir í alfaraleið heitir hún og höfundurinn heitir Páll Ásgeir Ásgeirsson. Ég las einhversstaðar að hann hefði valið eftir eigin smekk og geðþótta þá staði sem hann fjallaði um og það fannst mér ágæt hugmynd. Sömu hvatir og reka mann til að fletta uppá sér í símaskránni og gúgúl urðu til þess að það fyrsta sem ég sá var að enginn staður í Hrunamannahreppi hafði hlotið náð fyrir augum höfundar. Ég fann strax fyrir höfnunartilfinningu fyrir hönd míns gamla framfærsluhrepps og gerði hlé á lestrinum til að tjá vanþóknun mína. Þetta var nákvæmlega sama tilfinning og þegar maður er kosinn síðastur í liðið. Auðvitað er þetta reginhneyksli. Gullhrepparnir góðu ekki á blaði. Eina afsakanlega skýringin sem mér dettur í hug er að maðurinn hafi aldrei í Hrunamannahrepp komið.

No comments: