Ég hlustaði á Matthías landlækni segja í fréttunum að öll lyf væru hættuleg og þessvegna væru þau lyfseðilsskyld. Hann bætti því reyndar við að þau ólyfseðilsskyldu væru líka hættuleg. Ég get sagt eina sögu af því.
Það er búið að banna manni að kaupa Parkódín af því til er fólk sem misnotar það lyf. Einu sinni sem oftar var mér illt í bakinu og þá ákvað ég að kaupa Panodil. Mátti reyna það, byrjar hvortveggja á pé. Mér hafa alltaf líka alltaf þótt umbúðirnar utan um það frekar laglegar. Ekki var Panodilið mikilvirkt svo ég tók alltaf tvær í senn og lét ekki líða langt á milli. Ég sá á umbúðunum að það mætti taka 1-2 stykki, 1 til 4 sinnum á dag, þ.e. mest 8 stykki á dag og hugsaði með mér að auðvitað mætti taka aðeins meira en segði þar, það væri aldrei sagt frá því hvað væri raunverulegt hámark. Svona svipað og þegar stendur á matarumbúðum að eitthvað sé best fyrir tiltekinn dag, þá er yfirleitt allt í lagi að borða það nokkrum dögum seinna.
Þegar ég fór til læknis og nefndi þetta, þá sagði hann, og var alveg rólegur á meðan, að það væri hægt að deyja af minnir mig 12 stykkjum af Panodil á dag. Bara si svona. Ég spurði hvort hann væri að meina svona endanlegan dauða í eitt skipti fyrir öll og já, hann var einmitt að meina það. Mér brá aðeins við að hafa lent svona við dauðans dyr án þess að hafa vitað af því en get a.m.k staðfest að þessi skammtur eða jafnvel dálítið stærri, er ekki í öllum tilvikum banvænn.
Það hafa nú verið settar hauskúpur á varning af minna tilefni verð ég að segja.
9.3.09
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Þetta er víst sagður vera mjög kvalafullur dauðdagi, þegar lifrin er ónýt.
Nógu slæmt að deyja úr ofneyslu Panodils, þó það sé ekki kvalafullt líka.
Post a Comment