15.3.09

Fjórðungi til nafns

Þegar ég í fyrsta skipti á ævinni eignaðist peninga voru þeir afhentir Búnaðarbankanum til varðveislu og ávöxtunar. Það var andvirði tveggja dilka. Ég var tryggur viðskiptavinur bankans og datt aldrei í hug að beina viðskiptum mínum annað. Einn góðan veðurdag seldi ríkið Búnaðarbankann. Hann hefur gengið undir nokkrum nöfnum síðan, Kaupþing Búnaðarbanki, KB banki og Kaupþing og kannski einhverjum öðrum. Um daginn heyrði ég hann kallaðan Kriminal Banken.

Ég er víst í viðskiptum við Nýja Kaupþing í dag og verð að viðurkenna að ég finn ekki fyrir minnstu tryggð í garð þess fyrirtækis. Merkilegt að enginn skuli hafa hringt og boðið mér að skipta um banka. Það eru kannski engir aðrir bankar.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins er í bígerð að finna nýtt nafn á Nýja Kaupþing. Glitnir er búinn að breyta sér í Íslandsbanka. Lárus Welding er orðinn Snorrason á ný.

Fyrri nafnbreytingar bankans upplifði ég sem markaðstrikk, en nafnbreyting núna er af sama toga og þegar glæpamenn breyta um nafn þegar þeir hyggjast hefja nýtt líf. Ég spái því að viðskiptabanki minn muni verða vatni ausinn og nefndur Búnaðarbankinn. Auglýsingaherferð mun fylgja í kjölfarið.

Það er ofureinfalt að breyta um nafn; eitt eyðublað hjá þjóðskránni.





2 comments:

Anonymous said...

The Agricultural bank of Iceland. Engin spurning, grænn og glansandi og spreðar sæði sínu út um víðan völl þar sem einhver korn finna frjóa jörð meðan slatti fellur á meðal þyrna.
Og í tilefni af uppgjöri ársins 2008 þá skal það tekið fram að dilkarnir mínir sköpuðu mér inneign í stofnsjóði Sláturfélags Suðurlands auk þess að koma mér í samband við Búnaðarbankann.

Rúna said...

Bíddu nú við, getur verið að ég eigi hlut í Sláturfélagi Suðurlands án þess að vita af því? Það að eiga í stofnsjóði SS hlýtur að vera ómetanlegt. Erum við ríkar? Eða kannski bara þú?