31.3.09

Hýdrófíl


Það henti í góðærinu að stúlkur keyptu sér þessar þykku þungu glerkrúsir með gullnu lokunum, sem eru í einum ilmandi kassa og öðrum glampandi kassa þar utanyfir. Innihaldið lítil 50 grömm af rakakremi, dagkremi eða næturkremi.

Til að lýsa innihaldinu nánar er óhjákvæmilegt að grípa til engilsaxnesku. Kremin eru "decelerating, replumping, prodigious, anti-aging, resculpting, rebalancing, restorative, super-restorative, repairing, multi-active, firming, extra-firming, advanced extra-firming, contouring, correcting, age-defying, pore minimizing, thightening". Íslenskan, hin frjósama orðamóðir, stendur á gati, orðlaus.

Kreppan hefur frelsað okkur undan þessu neyslubulli, enda er algengt kílóverð í kringum eitthundraðþúsund. Nú er það Gamla apótekið sem hefur það sem þarf, á rétta verðinu. Rakakremið Hýdrófíl frá þeim er selt í 100 gramma ósmekklegri túpu og kostar í kringum sjöhundruð krónur. Alveg stórgott og ég mæli eindregið með því.

28.3.09

Hampur

Ef marka má fréttir er hampur aðallega ræktaður með leynd í lokuðum rýmum á Íslandi. Það er þó hægt að rækta jurtina utandyra ef marka á bókina Garðagróður, aðra útgáfu frá 1968, eftir þá Ingólf Davíðsson og Ingimar Óskarsson. Þar er þessi mynd og tegundarlýsing:
Hampur (C. sativa L.). 1 - 2 m há einær jurt með stór 5 - 9 fingruð blöð. Smáblöðin mjó og sagtennt. Blómin smá, grænleit. Úr stöngultrefjunum er unninn hampur, sem hafður er í kaðla, snæri, striga o. s. frv. Jurtin er einnig ræktuð til skrauts, vegna þess hve blaðfalleg og vöxtuleg hún er. Þarf skjól. Gott er að binda hana við prik til stuðnings. Þrífst vel. Fjölgað með sáningu.
Rétt að taka fram að það eru til mismunandi afbrigði af jurtinni. Sá hampur sem ræktaður er til iðnaðar inniheldur ekki vímuefnið svo neinu nemi. Hampur er ein fyrsta jurtin sem mannkynið tók í sína þjónustu, fyrir meira en tíuþúsund árum. Ræktun hennar hefur minnkað frá því mest var en núna er verið að horfa á að ræktun hennar er umhverfisvæn, það þarf lítið af skordýraeitri, illgresiseyði eða slíku. Plantan vex hratt og er ákaflega afurðamikil. Hægt er að nota hana á furðulega fjölbreyttan hátt, í byggingarefni, heilsufæði, föt, pappír, plastefni, og auðvitað reipi. Pappír unninn úr hampi þarf ekki að bleikja með klóri eins og þann sem gerður er út trjám.

Framtakssamir Íslendingar hafa reynt að rækta jurtina hér, gaman væri að vita hvort það hafi lukkast.

Hinir víðsýnu Bandaríkjamenn banna ræktun hamps til iðnaðarnota, án leyfa frá Fíkniefnaeftirlitinu. Verið er að reyna að breyta því.

23.3.09

Þegar vonin ein er eftir

Það vekur upp blendnar tilfinningar og margar spurningar að lesa minnisblað Seðlabankans dagsett 12. febrúar 2008 í tilefni að fundaröð starfsmanna hans í London í febrúar 2008 með bankamönnum þar í borg. Afdráttarlausar viðvaranir.

Davíð segir á morgunfundi Viðskiptaráðs 18. nóvember 2008:
Þegar heim var komið var óskað eftir fundi með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, fleiri ráðherrum og embættismönnum, og fékkst sá fundur. Þar var lesin upp í heild skýrsla um ferðina sem þá var til í handriti.
Þar á hann við þetta minnisblað. Var virkilega látið duga að LESA UPP textann fyrir stjórnendur landsins? Var ekki tilefni til afhenda þeim eintak? Hversvegna kemur ekki fram hvaða fólk sat umrædda fundi í London? Það vekur raunar athygli að ekki ein einasta mannvera er nafngreind í skjalinu. Er þetta virkilega eina skriflega gagnið sem varð til í þessari Londonferð?

Nú segir Björgvin G. að hann hafi aldrei heyrt af þessu minnisblaði. Honum hefur ekki verið boðið á upplesturinn. Geir Haarde segir að það hafi ekki verið einfalt að bregðast við.

Geir Haarde brást þó við, hélt til dæmis ræðu á Viðskiptaþingi 13. febrúar 2008 (þá hefði upplesturinn átt að vera nokkuð ferskur í minni). Hann fullyrti þá að Moody´s telji fjárhagsstöðu bankanna góða. (Merkilegt í ljósi þess að fulltrúar þess fyrirtækis lýsa miklum áhyggjum af íslenskum bönkum á fundum með seðlabankafólki í þessum sama febrúarmánuði). Og Geir segir við okkur:
Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður og greinargerðir fjármálaeftirlitsins, Moody´s, Credit Sights og fleiri aðila gætir enn neikvæðrar umfjöllunar hjá einstaka greiningaraðilum og fjölmiðlum. Þar er iðulega farið með hreinar stað­reynda­villur og lýsingar á stöðu íslenska hagkerfisins eru mjög ýktar. Það er áhyggjuefni að þessir aðilar skuli ekki taka tillit til þeirra ítarlegu upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og lýsa sterkri stöðu bankanna og ríkissjóðs. Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum.
Minnisblað Seðlabankans endar á skáldlegan hátt:
Ekkert bendir þó enn til þess og ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki.

21.3.09

Mannaþefur


Oft er fullyrt að engin lykt sé betri en sú af ungbörnum og er þar átt við nýþvegin ungbörn. Þetta er ekki í öllum tilvikum rétt. Ekki sjaldan hittir maður smáfólk sem angar langar leiðir af mýkingarefnum en lyktin af þeim er stæk. Óskiljanlegt er að vilja setja bláa, gula eða bleika ilmefnadrullu í síðasta skolvatnið, ég get ekki séð að þvotturinn komi hreinn úr vélinni eftir slíka meðferð. Ég þekki konu sem er í stökustu vandræðum með að knúsa barnabörnin af því ilmefnaáran í kringum þau er svo mikil að hún helst ekki við og leggst í mígreni eftir eiturefnaárásina. Mín kenning er sú að tölfræðilegra sé algengara að smábörn angi af mýkingarefnum en fullorðið fólk þar sem það noti frekar á sig ilmvötn og rakspíra en slíkt þykir víst ekki enn við hæfi að úða á smádýrin. Hvernig er hægt að segja foreldri að óþefur sé af barninu?

18.3.09

Lenor

Mýkingarefni eru illþefjandi óþarfi sem þó selst grimmt. Samt væri örugglega mun meiri markaður fyrir auðmýkingarefni.

16.3.09

Vort daglega brauð



Brauð fyrst.

Þessari reglu var fylgt eftir á mínu bernskuheimili. Hún felur í sér að þegar bæði kökur og brauð eru á kaffiborði, á maður að fá sér brauð áður en maður fær sér köku. Nægilegt var að fá sér eina brauðsneið. Brauðin voru þessi: Franskbrauð, heilhveitibrauð, normalbrauð og maltbrauð. Ég get ekki gleymt því hvað mér þótti heilhveitibrauðið andstyggilega vont á bragðið, en því var mikið haldið á lofti hve hollt það væri. Þetta heilhveitibrauð sem þá var bakað var alveg óskylt þeim brauðum sem fást í bakaríum nútildags. Það var sívalt, ekki bakað í formi, dökkbrúnt, hart og seigt undir tönn, eins og það væri úr hefilspónum. Aveg sérstakt óbragð af því sem ég hef ekki fundið af öðru matarkyns. Normalbrauðið fannst mér gott, það var ákaflega háreist og skorpan svo hörð að næstum var útilokað að vinna á henni. Franskbrauðið var best, með smjöri og rabarabarasultu.

Þetta voru svokölluð vísitölubrauð. Bakarar áttu alltaf að hafa þessi brauð á boðstólum á tilteknu verði.


15.3.09

Fjórðungi til nafns

Þegar ég í fyrsta skipti á ævinni eignaðist peninga voru þeir afhentir Búnaðarbankanum til varðveislu og ávöxtunar. Það var andvirði tveggja dilka. Ég var tryggur viðskiptavinur bankans og datt aldrei í hug að beina viðskiptum mínum annað. Einn góðan veðurdag seldi ríkið Búnaðarbankann. Hann hefur gengið undir nokkrum nöfnum síðan, Kaupþing Búnaðarbanki, KB banki og Kaupþing og kannski einhverjum öðrum. Um daginn heyrði ég hann kallaðan Kriminal Banken.

Ég er víst í viðskiptum við Nýja Kaupþing í dag og verð að viðurkenna að ég finn ekki fyrir minnstu tryggð í garð þess fyrirtækis. Merkilegt að enginn skuli hafa hringt og boðið mér að skipta um banka. Það eru kannski engir aðrir bankar.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins er í bígerð að finna nýtt nafn á Nýja Kaupþing. Glitnir er búinn að breyta sér í Íslandsbanka. Lárus Welding er orðinn Snorrason á ný.

Fyrri nafnbreytingar bankans upplifði ég sem markaðstrikk, en nafnbreyting núna er af sama toga og þegar glæpamenn breyta um nafn þegar þeir hyggjast hefja nýtt líf. Ég spái því að viðskiptabanki minn muni verða vatni ausinn og nefndur Búnaðarbankinn. Auglýsingaherferð mun fylgja í kjölfarið.

Það er ofureinfalt að breyta um nafn; eitt eyðublað hjá þjóðskránni.





14.3.09

Leitin að eldinum

Eva Joly segir í norsku viðtali sem spilað var í fréttunum áðan að sérstaki saksóknarinn fái ekki upplýsingar hjá fjármálaeftirlitinu vegna bankaleyndar. Ekki í fyrsta sinn sem erlendir fjölmiðlar færa okkur mikilvægar fréttir í tengslum við bankahrunið. Sérstaki saksóknarinn hefur sennilega sagt Evu Joly þetta í viðræðum sem þau áttu í ferð hennar hingað til lands. Mér er spurn afhverju hann upplýsir ekki um þetta opinberlega af eigin frumkvæði. Þetta kemur okkur öllum við. Allir (eða flestir a.m.k.) vilja að hann nái árangri í sínu starfi og að hann fái öll tæki og úrræði til að svo megi verða.

Það er greinilegt að hér er komið tilefni þess að dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi í fyrradag frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakan saksóknara, þar sem tiltekið er að hann eigi að geta fengið allar upplýsingar sem hann óskar frá hinum ýmsu stofnunum ríkisins og fleiri aðilum sem upp eru taldir. Ég les á milli línanna að þessar stofnanir hafi ekki sýnt sérstaka saksóknaranum á spilin sín.

Mér finnst augljóst að það verði að sameina þá aðila sem eiga að rannsaka refsiverða háttsemi í tengslum vegna bankahrunsins og mynda sterka heild þar sem allir leggja saman. Það er flestum óskiljanlegt að búið hafi verið til sérstakt embætti, örembætti, til að rannsaka þessi mál, í stað þess að stórefla efnahagsbrotadeildina.


9.3.09

Painkiller

Ég hlustaði á Matthías landlækni segja í fréttunum að öll lyf væru hættuleg og þessvegna væru þau lyfseðilsskyld. Hann bætti því reyndar við að þau ólyfseðilsskyldu væru líka hættuleg. Ég get sagt eina sögu af því.

Það er búið að banna manni að kaupa Parkódín af því til er fólk sem misnotar það lyf. Einu sinni sem oftar var mér illt í bakinu og þá ákvað ég að kaupa Panodil. Mátti reyna það, byrjar hvortveggja á pé. Mér hafa alltaf líka alltaf þótt umbúðirnar utan um það frekar laglegar. Ekki var Panodilið mikilvirkt svo ég tók alltaf tvær í senn og lét ekki líða langt á milli. Ég sá á umbúðunum að það mætti taka 1-2 stykki, 1 til 4 sinnum á dag, þ.e. mest 8 stykki á dag og hugsaði með mér að auðvitað mætti taka aðeins meira en segði þar, það væri aldrei sagt frá því hvað væri raunverulegt hámark. Svona svipað og þegar stendur á matarumbúðum að eitthvað sé best fyrir tiltekinn dag, þá er yfirleitt allt í lagi að borða það nokkrum dögum seinna.

Þegar ég fór til læknis og nefndi þetta, þá sagði hann, og var alveg rólegur á meðan, að það væri hægt að deyja af minnir mig 12 stykkjum af Panodil á dag. Bara si svona. Ég spurði hvort hann væri að meina svona endanlegan dauða í eitt skipti fyrir öll og já, hann var einmitt að meina það. Mér brá aðeins við að hafa lent svona við dauðans dyr án þess að hafa vitað af því en get a.m.k staðfest að þessi skammtur eða jafnvel dálítið stærri, er ekki í öllum tilvikum banvænn.

Það hafa nú verið settar hauskúpur á varning af minna tilefni verð ég að segja.

7.3.09

Þúsund þorskar

Forsíðan á þessu aukablaði sem fylgdi Mogganum í gær vakti athygli mína. Ég hef verið viðstödd fáeinar fermingarathafnir í kirkjum hér í borg og þær hafa verið töluvert frábrugðnar þeirri fallegu og persónulegu athöfn sem sýnd er á myndinni.

Yfirleitt er verið að ferma nokkra tugi fermingarbarna í senn og til þess að athöfnin taki ekki marga klukkutíma er verða hlutirnir að ganga smurt. Flokkar fermingarbarna ganga viðstöðulaust og án tafa fyrir prestinn sem segir hraðmæltur mjög "viltuleitastviðaðfremstamegni aðhafajesúkrist aðleiðtogalífsþíns" og um leið og jáið kemur útúr barninu þá kemur bunan um að vera "trúralltildauða".

Það myndi ekki þýða að bjóða upp á svona skírnir eða giftingar svo mikið er víst.

6.3.09

Prinsessan sem átti 365 kjóla

Það er gott til þess að vita að kreppan hefur ekki bitið alla jafnilla og að gamla Ísland lifir ennþá, sumir halda sínu striki, blessunarlega ósnortnir af þeirri bylgju endurskoðunar á lífsgildum sem hefur dunið yfir okkur.

Hvað segir það um Bretaveldi að þar skuli ekki finnast einn einasti brúðarkjóll samboðinn íslenskri snót sem er að fara gifta sig og það í annað sinn? Í anda gamla Íslands lætur hún ekki bugast og ráðgerir ferð til Rómaborgar til að leita að kjólnum eftir að Bretland hefur verið fínkembt, en sér sig um hönd á síðustu stundu og fer í staðinn til Flórída í kjólaleit, enda vill hún fá stóran og mikinn kjól. Hann hlýtur að vera til á Flórída.

Eftir því sem hér segir, ætlar Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur að gifta konuna þrátt fyrir að hún sé þegar í hjónabandi, en hún og maður hennar giftu sig í Hollandi. Það er samkvæmt hjúskaparlögum óheimilt að vígja mann sem er í hjúskap. Það á ekki síður við þó "hjónaefnin" séu gift hvort öðru. Slíka athöfn má með góðum vilja kalla blessunarathöfn en hjónavígsla er það ekki. Við skulum vona að frétt Vísis sé röng um þetta atriði og ekki verði framkvæmd "aukagifting" í Dómkirkjunni.

Það er ekker einsdæmi að konur vilji gifta sig í stórum kjólum. Hér er glæsilegt dæmi.

4.3.09

Ofurkraftur

Ég finn fyrir því að líkamsræktin sem ég er nýbyrjuð að stunda ýtir undir mikilmennskubrjálæði. Alveg blygðunarlaust stíg ég á brettið og geng þar á hraða 5,3, þó mér til hvorrar handar hlaupi íturvaxin ofurmenni og –kvendi á hraðanum 12,5.

Um daginn þegar ég ýtti á takkann á bíllyklinum, slokknaði umsvifalaust á öllum ljósastaurunum á bílastæðinu fyrir utan ræktina.