4.1.09

Árið 2008

Verstu kaup ársins voru Hómer ástargaukur.
Mesta skömm ársins var þegar ég þurfti að fara þrjár ferðir eftir vegabréfi sonarins og missti stjórn á mér í afgreiðslu opinberrar stofnunar.
Vanræksla ársins var að þvo bílinn bara einu sinni.
Aumingjaskapur ársins var að fara ekki í löngu tímabært dómsmál við nágrannann útaf sitkagreninu sem gnæfir yfir lóðina mína.
Veikindi ársins voru þursabit.
Mesti viðbjóður ársins var franski kálfshausinn.
Dónaskap ársins í minn garð sýndi kassastelpan sendi sms um leið og hún skannaði nýlenduvörurnar sem ég var að kaupa.
Klaufalegast á árinu var þegar týnda yfirhöfnin mín reyndist hanga á snaga í fatahenginu.
Hræddust var ég á árinu sem leiðbeinandi í æfingaakstri.
Mesta leti ársins er að taka bilaða lyftu upp á 3. hæð.
Vonbrigði ársins voru að Reykjavíkurborg skyldi láta Vöku taka bifreið sonarins, þó hún stæði um stundarsakir númerslaus á hlaðinu.
Niðurlæging ársins var að fá ekki svar við margítrekuðu kvörtunarbréfi til Reykjavíkurborgar vegna ofangreinds atviks.
Hræðilegasta hljóð ársins heyrðist þegar maður skrapaði rúðugler með málmsköfu, hvar ég sat fyrir innan við fimmta mann.
Blóm ársins voru túlipanarnir sem blómstruðu fagurlega síðasta vor, þó ég hafi fengið versta þursabit ævinnar við að grafa þá niður.

3 comments:

Anonymous said...

Er þetta ekki óþarflega kreppuleg afstaða til síðasta árs? Hvað með bestu kaupin, mesta sigurinn, stórkostlegasta framtakið ...?

Er ekki einfaldast að leysa ástargauksmálið með því að gleyma búrinu opnu? Ferfætlingarnir sjá svo um rest...
Systir

Anonymous said...

Ástargukurinn!! virkaði hann ekki?
Gleðilegt ár vinkona.
Kveðja Kristjana

Rúna said...

Ástargaukurinn Hómer er hávær og virðist ófær um að taka því rólega. Það er streituvaldandi að passa að líftóran tolli í honum. Það var reyndar fyrirsjáanlegt vandamál. Ég spái því að hann muni týna lífinu á árinu, jafnvel þó ég muni ekki grípa til þess ljóta ráðs að gleyma búrinu opnu.