11.7.09

Staup


Áhugi minn á jarðargróðri er ekki takmarkaður við blóm, en því miður sækist mér illa að læra nöfn á mosum, sveppum, fléttum og þvílíku. Svona jurtir, ef jurtir má kalla, eru oft einstaklega listrænar í útliti og hljóta að veita hönnuðum innblástur. Þetta minnir aðeins á staup sem kona með rauðan varalit hefur drukkið úr.

Þetta fann hún Ásý frænka mín um daginn og spurningin er hvort einhver glöggur lesandi ber kennsl á gripina. Ætli þetta sé ekki svona einn og hálfur cm á hæð.

6.7.09

Tapað - fundið

Allar fréttir af fundnum fornleifum vekja áhuga minn, enda langaði mig til að verða fornleifafræðingur þegar ég var krakki. Sú hugmynd var ekki alveg úr tengslum við líf mitt, því afi minn safnaði gömlum munum og ég var og er afskaplega stolt af safninu hans sem ennþá er hægt að skoða í Gröf.

Núna sá ég á frétt um að fyrrverandi tilvonandi kollegar mínir hafi fundið næstum þúsund ára gamlan snældusnúð í jörðu í Reykjavík. "Véborg á mig" segja rúnirnar á honum. Enginn kvenmaður heitir Véborg á Íslandi, né finnst nafnið á skrá Mannanafnanefndar yfir leyfð stúlkunöfn. Engin Véborg finnst í Íslendingabók.

Wikipedia segir af einni Véborgu. Hún var ein þriggja skjaldmeyja sem fóru fyrir liði 300 slíkra í her Haraldar hilditannar í gríðarlegum bardaga við Brávelli í Svíþjóð í kringum árið 750 eftir því sem sagt er. Því er logið að 200 000 manns hafi tekið þátt í bardaganum. Véborg féll í orrustunni, fyrir Þorkeli hinum þrjóska og er frá því greint að orðaskak hafi fylgt vopnaskaki þeirra.

Véborg þessi hefur því tæpast átt snúðinn sem er frá 10. eða 11. öld, en eigandi hans gæti alveg hafa verið látinn heita eftir þessari frægu kvenhetju. Það er svo ráðgáta afhverju notkun á þessu prýðilega nafni hefur lagst af, fundur snúðsins verður vonandi til þess að nýjar Véborgir vaxi úr grasi. Ekki veitir okkur af kjaftforum skjaldmeyjum.

5.7.09

Myndarlegir


Ég hef veitt því athygli að allar fréttir á mbl.is af starfsemi lögreglunnar eru myndskreyttar með einni og sömu myndinni. Það er mynd af húddi á lögreglubíl. Fín mynd en ég óska eftir tilbreytingu. Þessa mynd tók ég á17. júní og hún væri oft alveg upplögð.

Í boði Landsvirkjunar


Um daginn naut ég gestrisni Landsvirkjunar og fékk að skoða Kárahnjúkavirkjun með leiðsögn starfsmanna fyrirtækisins. Sama hvað manni kann að finnast um framkvæmdina, þá má dást að mikilfengleika mannvirkisins, handverkinu, verksvitinu og því sem menn geta áorkað ef nógu margir leggja saman.

Eitt mikið áhyggjuefni er fok. Hér má sjá viðleitni til að hindra það. Ég geri ráð fyrir að þetta sé einhverskonar tilraun því aðeins var eitt svona tæki að störfum. Þetta tæki minnir mig á þegar rófugarðarnir voru vökvaðir í gamla daga. Bunan sveif í svipuðum boga.

Annars eru myndir úr þessari frægðarför hér.