Óhjákvæmilega hugsaði ég dálítið um hvert efni minnar jómfrúrfærslu ætti að verða. Niðurstaðan varð sú að ég myndi gera mest gagn með því að miðla til umheimsins nýrri uppgötvun sem ég gerði í gær. Brýnna erindi finn ég mér ekki í bili.
Ég á bifreið og þríf hana að jafnaði árlega hvort sem þess þarf eða ekki. Oft legg ég bifreið þessari í stæði fyrir utan heimili mitt. Stór ösp gnæfir þar yfir og hristir af sér brum, blöð og rauða drjóla (þetta er karlkyns ösp) og öllu þessu fylgja klessur af harpixi sem steingerast á bílnum. Ég hef lagt til atlögu við þær með ótal hreinsiefnum sem seld eru okurverði á bensínstöðvum og líka allskonar efnum, sem eru síst ætluð til bílþrifa og niðurstaðan er í aðalatriðum sú sama, harpixið haggast bæði seint og illa þó maður djöflist með tuskuna.
Ekki veit ég hvernig sú hugmynd fæddist en kannski var það þegar ég hreinsaði naglalakkið af mér fyrr um daginn með góðum árangri. Í ljós kom að naglalakkseyðirinn "Lemon" sem seldur er í Bónus við vægu verði, fjarlægir harpixið umsvifalaust og í gærkvöldi skemmti ég mér konunglega við að strjúka klessurnar af. Þær létu undan nokkurnveginn jafnauðveldlega og naglalakkið. Eftir því sem ég best get séð er lakkið á bílnum óskemmt þannig að hér hefur unnist fullnaðarsigur.
Sennilega gera sér ekki allir grein fyrir hversu mikilvæg uppgötvun þetta er. Hún getur auðveldað líf margra. Ég fór strax að hugsa um ýmsar merkar uppfinningar, sem hafa einmitt verið svo fagrar í einfaldleika sínum og komið til manna af einskærri tilviljun eins og gjöf frá æðri máttarvöldum. Svo fylltist ég miklum efasemdum um afrek mitt og hugsaði með mér að auðvitað væru allir aðrir löngu búnir að fatta þetta og trúlega væri ég síðust á jarðríki til þess.
28.6.08
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment