1.1.10

Fairy pizza

Ég tók mig til og bjó til fyrsta pizzudeig ársins. Það lyfti sér vel. Pizzusósuna gerði ég úr hökkuðum niðursoðnum tómötum sem ég setti út í hvítlauk, oregano, pipar og eitthvað fleira. Setti líka slettu af olíu sem var í sultukrukku, krukkan sú var hluti af viðleguútbúnaði mínum síðan í útilegum sumarsins. Í kjölfar bankahrunsins tók ég upp nýjan lífsstíl sem einkennist af aðhaldi, sparnaði og almennri hófsemd og dyggðugu líferni. Eðlilegur hluti slíks lífsstíls er að nýta matarolíuslettu sem finnst óvænt í sultukrukku.

Pizzan kom heit og girnileg úr ofninum . Fyrsti bitinn fannst mér ekki góður. Þegar ég tók þann næsta hugsaði ég um það hvort það gæti verið sápubragð sem ég fyndi. Ekki dugði sú hugsun til að stöðva mig, þriðji bitinn var tekinn en þá rann það upp fyrir mér að sápubragðið var engin ímyndun. Það rifjaðist upp að ég hafði ekki aðeins sett matarolíu í krukku fyrir útileguna, heldur hafði ég líka sett uppþvottalög í aðra krukku. Sá uppþvottalögur var gulur alveg eins og Barilla ólífuolían. Alveg merkilegt hvað matarolía og gulur uppþottalögur geta verið svipuð ásýndar.

Þannig atvikaðist það að mér tókst að fullfremja bakstur á pizzu með uppþvottalegi og borðaði hana síðan. Ég er með sápubragð í munninum og það fer ekki þó ég hafi reynt ýmislegt til að skipta því út fyrir önnur brögð.

Þann lærdóm má draga af sögunni að grænn uppþvottalögur sé heppilegri fyrir hrakfallahúsmæður.

3 comments:

Anonymous said...

Og svo er oft fölblár litur á klósetthreinsivökvum ....

Rúna said...

Ég geri ráð fyrir að það sé öryggisatriði. Annar myndi maður drekka hann.

baun said...

Þegar ég var lítil voru krakkar látnir bíta í sápustykki ef þeir sögðu ljótt. Þetta er e.t.v. nútímaútgáfan af því...sápa fyrir matvönd börn?